Brautarholti 22, 105 Reykjavík • Sími: 551 4003 • thorshamar@thorshamar.is


  Aðalsíða
  Á döfinni
  Um félagið
    —Er karate fyrir alla
    —Shotokan karate
  Orðalisti
  Gráðunarkröfur
  Karatesaga Íslands
  Úrslit úr mótum
  Tenglar
  Myndir
  Spjall
  Půstlisti

 
 

Karate

Karate er bardagaíþrótt upprunnin á japönsku eyjunni Okinawa þar sem eyjaskeggjar æfðu sjálfsvörn undir áhrifum frá kínverskum bardagalistum. Í aldaraðir höfðu Kínverjar lagt stund á sínar eigin bardagalistir. Angar af þessum listum bárust til Okinawa og
blönduðust þær við hinar ýmsu bardagalistir sem stundaðar voru á eyjunni svo úr urðu mismunandi staðbundin afbrigði sem kennd voru við sínar borgir eða bæi. Þannig urðu til t.d. shuri-te og tomari-te þar sem „te“ þýðir hönd og Shuri og Tomari eru bæir. Það var síðan Gichin Funakoshi (sjá um Shotokan) sem innleiddi hugtakið kara-te þar sem „kara“ þýðir tómur.

Í karate er beitt höggum og spörkum til að yfirbuga andstæðinginn.
Kraftmiklar og snarpar hreyfingar einkenna karate og íþróttin byggir upp styrk, þol og liðleika.

Karate er mjög öflug sjálfsvörn en einnig er hægt að æfa það sem keppnisíþrótt.
Iðkun karate skiptist í þrjá hluta, kihon, kata og kumite.Kihon
eru grunnæfingar þar sem hver tækni fyrir sig er kennd og brotin niður. Iðkandinn æfir högg, spörk og varnir síendurtekið þar til hann nær fullkomnu valdi á hreyfingum og stöðum í karate. Allur árangur í karate byggist á að iðkandinn tileinki sér grunnæfingarnar af kostgæfni.

Kata eru grunnæfingar ofnar saman í bardaga við ímyndaðan andstæðing. Í þeim er að finna ýmis brögð og varnir til að nota í sjálfsvörn og dýpkar skilningur á þeim eftir því sem iðkandinn lærir meira.
Heil fræðigrein í karate fjallar um túlkun á hreyfingum kata og sýnist oft sitt hverjum. Allir eru þó einhuga um að í kata er að finna mikinn fróðleik enda eru margar kata ævafornar og mun eldri en íþróttin sjálf. Í shotokan karate eru 26 kata og þurfa iðkendur að kunna skil á ákveðnum kata fyrir hverja gráðu. Kata er sjálfstæð keppnisgrein í karate.

Kumite er frjáls bardagi milli tveggja einstaklinga. Stig eru gefin fyrir högg og spörk sem hæfa andstæðinginn á leyfilegum stöðum og geta keppendur hlotið eitt, tvö eða þrjú stig eftir því hversu erfiðri árásartækni þeir beita. Þannig fær keppandi t.d. þrjú stig fyrir vel útfært spark í höfuðhæð en færri stig fyrir aðrar árásir. Öryggisreglur í kumite eru strangar, keppendur bera hlífar og fyllsta öryggis er gætt. Markmiðið í kumite er að hljóta sem flest stig í tveggja til þriggja mínútna viðureign. Þrátt fyrir að kapp sé mikið í kumite eru meiðsli fátíð í keppnum


     © Karatefélagið Þórshamar • Gestir síðan 1.jan 2001