Brautarholti 22, 105 Reykjavík • Sími: 551 4003 • thorshamar@thorshamar.is


  Aðalsíða
  Á döfinni
  Um félagið
  Um karate
  Orðalisti
  Dojo-kun
  Gráðunarkröfur
  Úrslit móta
  Tenglar
  Myndir
  Spjall
  Póstlisti

 
 

Karatesaga Íslands

Karatesaga Íslands eftir Karl Gauta Hjaltason
Hafa ber í huga að sagan er rituð í ársbyrjun 1983. Hún birtist í Karateblaðinu það ár.

Formáli
Með þessari grein ætla ég að reyna að leysa úr þeirri brýnu þörf sem er á rituðum heimildum um sögu karate á Íslandi. Vert væri einnig að skrifa um þróun karate og uppruna stílanna svo og ítarlegar greinar um hvern stíl fyrir sig en það verður að bíða betri tíma. Þeir sem telja sig vita annað og meira en í þessari grein kemur fram um einhver atriði vinsamlegast skrifið í næsta Karateblað sem kemur út í haust.

Fornöldin
Einhvern tíma á árunum 1969 – 1971 voru staddir hér tveir Japanir og dvöldust þeir á heimili fyrrverandi formanns JFR [Júdófélag Reykjavíkur] sem hafði áður verið Íslandsmeistari í boxi. Þá var júdóíþróttin að slíta barnsskónum og fyrrverandi boxkempur æfðu júdó af kappi.

Ekki væri getið um þessa Japani nema vegna þess að báðir voru þeir 3. dan í shotokan karate og höfðu báðir verið háskólameistarar hvor sitt árið í skóla sínum í Japan. Að sögn júdómannsins voru þeir báðir mjög færir í karate og sýndu m.a. í sjónvarpi. Annar hét Thosioki Tani og var Japanalegur útlits en hinn Akimasa Simonishi og var hærri og mjög vel byggður. Meðan á dvöl þeirra stóð kenndu þeir karate í húsi Júpiters og Mars og var nokkuð fjölmennt á námskeiði þeirra sem stóð í fjóra mánuði. Muna margir frumkvöðlar júdó eftir þessu. Ekki gráðuðu þeir félagar neina vegna þess að þeir höfðu ekki leyfi frá sínum sensei í Japan en til gamans sögðu þeir nemendunum hvaða gráðu þeir mættu búast við að ná væri próf haldið.

Nokkuð þrálátur orðrómur hefur verið um að hingað hafi slæðst karatemenn um svipað leyti og getur þar bæði verið ruglað saman mönnum og farið með rétt mál. Hér vantar nákvæmar upplýsingar.

Reynir Z. Santos
Reynir Z. Santos (Rodger) kom hingað til lands um 1967 og kenndi m.a. karate hjá bandaríska hernum suður á velli. Hann hafði kennt í Bandaríkjunum en karate hafði hann stundað frá unga aldri í heimkynnum sínum, Filippseyjum, og náði hann 3. dan í shotokan þar 1962, þá aðeins 19 ára að aldri. Ekki er vitað með vissu hvenær hann hlaut 1. dan í tang soo do en giska verður á að það hafi hann gert í Bandaríkjunum. Svo virðist sem Santos (eins og hann er oftast kallaður) hafi í fyrstu haft meira dálæti á tang soo do því hann kenndi það í KFR [Karatefélagi Reykjavíkur] fyrst og síðan í KFV [Karatefélagi Vestmannaeyja].

Á árunum 1968 – 69 kom hann m.a. fram í sjónvarpi hér og hélt einhverjar sýningar. Kennslu fyrir Íslendinga hóf hann ekki fyrr en 1971 þegar hann kenndi í átta mánuði í félagsheimilinu í Biskupstungum í Árnessýslu. Árið 1972 kenndi hann um skeið í húsakynnum JFR í Skipholti svo að júdó og karate hafa löngum fylgst að og gera enn í JFR. Sá áhugamannahópur sem kynntist karate á þessum árum myndaði síðan þann hóp sem stofnaði KFR 23. september 1973.

Til að byrja með kenndi Santos þessum áhugamönnum með hléum 1972 og fram á sumar 1973. Eftir það hélt hann til Vestmannaeyja og stofnaði þar Karatefélag Íslands sem átti að ná yfir allt landið en í daglegu tali hefur þetta félag aðeins verið nefnt Karatefélag Vestmannaeyja. Hugmynd Santosar var að KFÍ yrði nokkurs konar landssamband karate en eins og kunnugt er var aldrei neitt samband milli þess og t.d. KFR né KFÍ í Reykjavík svo líta verður á þau sem sjálfstæð félög. Í Eyjum dvaldist Santos 1973 – 1975 þegar hann hélt aftur til Reykjavíkur og stofnaði þá sitt þriðja félag sem einnig hét Karatefélag Íslands. Hann fór nokkrar ferðir til Eyja til kennslu til að byrja með en það lagðist fljótt niður og nemendur hans tóku við kennslu þar alfarið.

Í KFÍ (síðar Shotokan karatefélagið, SKF, og loks Karatefélagið Þórshamar) var iðkað shotokan karate og má teljast undarlegt að Santos hafi ekki kennt það fyrr neitt að ráði. Æft var í húsakynnum JFR og gekk félagið vel þar til það lagðist niður vorið 1977. Þann 27. maí 1979 var það endurstofnað og kenndi Santos með hléum þar til hann gaf höfuðborgina upp á bátinn og fór til Ísafjarðar vorið 1981.

Fullvíst má telja Santos með frumkvöðlum karate á Íslandi og á hann þakkir skilið fyrir það. Um persónuna Reyni Santos má segja að hann hafi verið prúðmenni en oft kom berlega í ljós að austurlenskar hefðir í huga hans komu ekki heim og saman við lýðræðiskennd Íslendinga. Oft var ekki hægt að brúa það stóra bil og fór gjarnan svo að upp úr samstarfinu slitnaði. Sem karatemaður er Reynir kraftmikill og þegar hann var upp á sitt besta góður kennari og hafði til að bera sérstæðan bardagastíl. Í shotokan-kennslunni virtist hann blanda oft á tíðum saman og er það ofur skiljanlegt hér á hjara veraldar að kennari skyldi ekki fara alveg troðnar slóðir en velja og hafna eftir sinni sannfæringu. Nú dvelur Santos á Ísafirði og kæmi ekki á óvart þó að hann gerði eitthvað í karatemálum þar.

Karatefélag Reykjavíkur
Forsaga KFR er sú að á árinu 1972 byrjar R. Santos að kenna áhugamönnum um karate tang soo do í húsakynnum JFR í Skipholti. Litlu síðar færðu þeir sig í Baldurshagann og æfðu þar um stund en snemma á árinu 1973 fer Santos til Vestmannaeyja og byrjar þar með Karatefélag Vestmannaeyja (sjá að framan). Á meðan færðu félagarnir sig í húsnæði að Laugavegi 178 og telst stofndagur KFR 23. september 1973. Í september 1974 ræðst Kenichi Takefusa, 3. dan í goju ryu, til félagsins og var skipt um stíl samtímis.

Ef nefna á nokkra af þeim sem hófu æfingar í Skipholti eða í Laugardalnum er fyrsti formaður þeirra í KFR Ásgeir Hannes Eiríksson sem nú er þekktur pylsusali á Lækjartorgi. Svo má nefna Andrés Hafliðason sem varð næsti formaður á eftir Ásgeiri 1975 en þá var gerð nokkurs konar stjórnarbylting. Aðrir voru t.d. Kristján Gissurarson sem nú er þekktur stangarstökkvari og Guðlaugur Atli Erlendsson sem byrjaði í september 1974 þegar Ken hóf kennslu (sjá kafla um Ken). Árni Einarsson hóf æfingar í september 1975 og varð formaður 1982. Karl Gauti Hjaltason hóf æfingar í KFR í ágúst 1976 en stofnaði síðan sjálfur ásamt fleirum KFÍ upp á nýtt 1979. Steinar Einarsson byrjaði í janúar 1977 og varð formaður KFR 1978 allt til ársins 1982. Hannes Hilmarsson var einn af þeim sem hófu æfingar í Laugardalnum en nú er hann formaður Stjörnunnar í Garðabæ.

Undir leiðsögn Kens blómstraði KFR og var 1975 flutt í Ármúla 28. Aftur var flutt í núverandi húsnæði 1982 en það er að Ármúla 36. Kenichi hætti kennslu smám saman á árunum 1977 – 78 og fengu KFR-ingar þá til landsins Japana að nafni Isao Sannomyia, 2. dan, en hann var við nám í Kaupmannahöfn. Isao kom hingað fjórum sinnum 1978 – 80. Síðan 1980 hafa KFR-ingar sjálfir annast alla kennslu í félaginu og er aðalkennari þar nú Atli Erlendsson 2. dan og er hann kominn lengst allra Íslendinga í karate. Atli er 24 ára gamall og hefur æft sleitulaust síðan 1974 eða í um níu ár. Atli fór til Danmerkur 1979 og má segja að það sé fyrsta utanlandsför í þeim tilgangi að æfa karate. Árið 1978 fór Andrés Hafliðason, sem þá var formaður, til Bandaríkjanna og náði þar stuttu síðar 1. dan í goju ryu og er hann fyrsti Íslendingurinn sem æfir hér á landi upp í svart belti. Andrés dvelst enn ytra.

Sumarið 1980 fara svo fjórir kappar úr KFR og einn úr KFA í „víking“ til Japan eins og DB [Dagblaðið, síðar DV] orðaði það. Þetta voru þeir Atli, Árni, Steinar og Stefán Alfreðsson, sem nú er kennari hjá Stjörnunni, allir úr KFR, og Magnús Sigþórsson sem verið hefur kennari á Akureyri um langt skeið (sjá KFA-kafla). Þar dvöldust þeir í einn mánuð og náðu allir shodan hjá sensei Ishigooka, 7. dan í goju ryu, 4. ágúst 1980. Þeir kepptu einnig í Japan en litlar sögur fara af þeirri keppni.

Vorið 1982 fékk KFR hingað til lands Brian Waits 5. dan og var hann hér í nokkra daga við kennslu. Brian er einn þekktasti kennari Bretlands í goju og álitinn mjög harður kennari. Ef við snúum okkur að lokum að starfsemi KFR ber hæst að í ágúst 1976 kom til félagsins Þorsteinn Viggóson, 1. dan í shotokan, frá Danmörku með Tanaka heimsmeistara og fleiri köppum og var þá efnt til geysimikillar budo-hátíðar í Laugardalshöll og Íslandsmót í goju ryu haldið í leiðinni (sjá nánar kafla um Tanaka). KFR hefur haldið nokkur innanfélagsmót um dagana, í apríl og nóvember 1977 og tvisvar 1982. Ef litið er yfir starf félagsins er mikil gróska í því 1975 – 77 en síðan kemur deyfð allt til ársins 1981. Þessi deyfð virðist vera alls staðar í karate á Íslandi á þessum árum en nú er gengin í garð seinni gullöld karate hérlendis og sést það á starfi allra félaga landsins. Í KFR æfa nú reglulega um 100 manns og félagar eru yfir 200 talsins. Atli Erlendsson og Árni Einarsson, báðir 2. dan, voru í lok árs 1982 sæmdir heiðursorðunni „Dómgæsla 1982“.

Vestmannaeyjar
Reynir Santos fer fyrst til Eyja í lok árs 1972 og byrjar kennslu fyrir gos (23/1 1973). Eftir gos hættir hann kennslu og eitthvað fer hann til Reykjavíkur á árinu 1973. En síðan fer Guðbrandur Jónatansson til Santosar og biður hann um að kenna sér karate. Tekur hann vel í það og borgar Gutti 25.000 kr. fyrir fyrsta mánuðinn í þessari einkakennslu en eftir það ekkert. Santos kennir Gutta einum fyrsta eina og hálfa árið eða til 1974 – 5 þegar þeir stofna KFV (eða KFÍ). Í KFV kennir Santos tang soo do. Félagið gekk hálfbrösuglega um tíma en um haustið [án árs] fer Santos til Reykjavíkur alfarinn. Eftir að Santos fer tekur Gutti við kennslu og er Santos fenginn nokkrum sinnum og greitt undir hann til Eyja. Eitthvað lítið kenndi hann þó í þessum heimsóknum sínum og fór svo að 2. janúar 1977 var honum formlega vikið úr starfi með uppsagnarbréfi. KFV leggst niður af og til eftir þetta en starfar þó á árinu 1980 eða til 1981. Félagar voru um 30 – 50 þegar mest var og mest æfðu 73 nemendur undir stjórn Gutta 1980.

Ekkert samband var á milli KFV og Reykjavíkurfélaganna. Nokkuð var reynt að fá kennara frá Kanada til kennslu eftir að Santos var sagt upp en það gekk ekki. Í Eyjum voru alls þrír gráðaðir upp í gult og einn í grænt belti (Gutti) en beltakerfið var hvítt, gult, grænt, brúnt og svart. Santos og Gutti sýndu nokkuð í Eyjum og var ávallt fullt hús á sýningunum. Mestu slagsmálahundarnir flykktust í karate en hættu jafnan því ekki var kennt mikið fyrir þá og gáfust þeir upp á þrekinu. Líklegt má telja að á þessum Eyjaárum sínum hafi Santos verið mjög góður líkamlega og karatelega séð og að Gutti hafi uppskorið vel í einkakennslu hans. Guðbrandur sagði í viðtali við greinarhöfund að á árinu 1975 hafi Santos sent myndir út og félagatalið og fengið út á það 2. dan og virðist sú vitneskja skekkja allmikið fyrri vitneskju um gráðuferil Santosar. Gutti er nú búsettur í Hafnarfirði og íhugar jafnvel að hefja æfingar í shotokan, er hann að sjálfsögðu velkominn.

Í lokin er vert að minnast á nokkra sem æfðu í KFV. Bubbi Morthens æfði þar um tíma á árunum 1974 – 5 en hann er nú sem kunnugt er þekkt poppstjarna hérlendis. Bubbi hafði æft box í Danmörku og lá því vel við að hefja iðkun karate hér. Aðra frumkvöðla má telja upp, eins og Gunnar Eiríksson, Drífu Kristjánsdóttur, sem var lengi ritari, og Halldór Guðmundsson.

KFÍ – Þórshamar
Þegar Santos kom frá Eyjum var Ken orðinn kennari í KFR og hóf þá Santos að kenna byrjendum 23. október 1975 í nýstofnuðu félagi sínu, Karatefélagi Íslands, sem einnig má líta á sem framhaldsfélag frá Karatefélagi Vestmannaeyja. Í þessum fyrsta flokki voru t.d. Karl Sigurjónsson sem enn æfir hjá Þórshamri, Gunnar Gunnarsson og Sigurður Sverrisson sem æfði lengi vel síðan hjá KFR eftir að KFÍ lagðist niður. Í byrjendahópi í janúar 1976 er t.d. Gísli Klemenzson sem síðar endurvekur KFÍ 1979 og enn æfir í Þórshamri. Þórður Antonsson byrjaði líka litlu síðar en hann æfir enn.

Félagið hefur ávallt æft í húsnæði JFR í Brautarholti 18. Höfundur telur mikla söguskekkju hafa átt sér stað 1976 í ágúst er KFR-menn héldu sitt Íslandsmót sem í raun var bara Íslandsmót goju ryu. Hægur vandi hefði verið að halda þarna gott og gildandi Íslandsmót ef strákunum hans Santosar hefði verið boðin þátttaka. Eftir blómlegt starf lagðist félagið niður vorið 1977. Nemendurnir hættu flestir en sumir fóru yfir í KFR. Vorið 1979 kenndi Santos nokkrum nemendum heima hjá sér og tók t.d. Gísli Klemenzson brúnt belti í Hljómskálagarðinum.

Þann 27. maí 1979 endurvöktu þeir Gísli Klemenzson, sem varð formaður, og Karl Gauti Hjaltason félagið og hófust æfingar í Gerplu í Kópavogi. Um haustið byrjuðu æfingar í Brautarholti enn á ný og kenndi Santos af og til fram til ársins 1981 þegar hann var settur af sem forseti KFÍ og nafni félagsins breytt í Shotokan karatefélagið. Þetta gerðist á sögulegum aðalfundi í mars 1981. Nafni félagsins var aftur breytt í Þórshamar í október 1982 og var nafnbreytingin að kröfu ÍBR.

Vorið 1981 stofnuðu nokkrir félagar í KFÍ félag á Selfossi (sjá kafla) og haustið 1981 var stofnuð deild innan Gerplu í Kópavogi að tilstuðlan höfundar (sjá kafla). Formennsku Gísla Klemenzsonar lauk vorið 1980 og tók þá K. Gauti við og er enn við formennsku. Eftir aðalfund 1981 hafa mót, sýningar, ferðalög og böll verið reglulega á dagskrá félagsins og mikið starf unnið. Samband tókst við Noreg er höfundur og Þórður Antonsson fóru hálfgerða landnámsför þangað í júní 1981 og kynntust þar Steve Cattle og Ólafi Wallevik. Ólafur er nú genginn í félagið og kemur til Íslands af og til og kennir. Hann byrjaði fyrst hjá KFA (sjá kafla) 1976 en hélt síðan til náms í Noregi og hefur náð þar góðum árangri. Í september 1981 hlaut hann 1. dan. Á NM 1982 í Finnlandi þar sem þrír kepptu fyrir Íslands hönd (Ólafur, Atli og Árni KFR) náði Ólafur 3. sæti í sínum flokki.

Steve Cattle 5. dan hefur tvisvar sinnum heimsótt Þórshamar og verður hann kynntur nánar síðar. Í febrúar 1982 fengu shotokan-félögin hingað til lands Martin Burkhalter 2. dan. Martin er Svisslendingur og er landsliðsþjálfari Norðmanna í karate. Hann er einnig þekktur alþjóðadómari og kunnur fyrir að vera reffilegur dómari.

Hér verður minnst á að 15. ágúst 1981 var haldinn á Íslandi karatedagur og tóku þátt í honum Þórshamar (þá SKF), KFR, Stjarnan og Selfoss. Þessi hátíð tókst vel og er hér í fyrsta sinn um samvinnu á milli stílanna að ræða að einhverju marki. Í sjónvarpinu kom stór hluti af sýningaratriðunum.

Hraðinn í framförum karate hefur ávallt verið að aukast og 28. nóvember 1981 var stofnað SKSÍ sem eru samtök shotokan-manna (sjá kafla). Í janúar 1982 var haldið fyrsta Íslandsmót í shotokan og sigraði þar K. Gauti í kumite. Á Íslandsmótið kom mesti áhorfendafjöldi sem sótt hefur karatemót eða 250. Í september 1982 voru tvö ný shotokan-félög stofnuð, FH og Sindri (sjá kafla) og eru karatefélögin þá orðin átta hérlendis, þar af fimm shotokan. Meðal félaga eru ýmsir þekktir keppnismenn, s.s. „Trölli“, Sveinn Grímsson, og „Ísbrjóturinn“, Víkingur Sigurðsson.

Akureyrarsagan
Það hefur verið um 1975 sem áhugamenn um karateíþróttina á Akureyri fengu 1. dan Júgóslava til að kenna sér en karate hafði hann lært í hernum. En að þremur mánuðum liðnum var kennsluefni á þrotum og hætti hann þá kennslu. Þá var haft samband við Kenichi Takefusa 3. dan sem kenndi í KFR og hann fenginn til kennslu á 2 – 3 mánaða fresti. Þess á milli kenndu nemendurnir sjálfir. Var karatelíf blómlegt á Akureyri um 1975 – 1977 og heimsóknir þeirra til Reykjavíkur til æfinga tíðar en goju ryu-karate var æft á báðum stöðum. Strax fór að bera á Magnúsi Sigþórssyni sem eljusömum iðkanda og var hann einn í hópi þeirra fimm sem fóru til Japan 1980 og náðu shodan.

Ólafur Wallevik æfði á Akureyri áður en hann hélt til Noregs um 1976 – 7 en þá skipti hann yfir í shotokan þar sem goju ryu var af skornum skammti þarlendis. Á Akureyri er æft í íþróttahúsi MA og hefur heyrst um útibú á Dalvík, Húsavík og jafnvel á Ólafsfirði. Sumarið 1981 fór Magnús til Svíþjóðar í æfingabúðir. Mjög lítið og nánast skammarlegt samband hefur verið á milli KFA og Reykjavíkurfélaganna um langt skeið, má segja að það sé nú einn versti punktur í öllu karatelífi hérlendis og þarf að bæta ef þeir Akureyringar vilja eiga samleið með hinum karatefélögum landsins. Nú nýverið tóku nokkrir nemendur Magnúsar sig til og stofnuðu annað Akureyrarfélag og æfa sér og fá þjálfara frá Reykjavík. Nokkuð óljóst er um gang mála á Akureyrarsvæðinu í sambandi við karate og eru þetta þeir kvistir sem höfundur hefur aflað sér.

Kenichi Takefusa
Í september 1974 fengu þeir áhugamenn, sem æft höfðu tang soo do undir stjórn Reynis Santos frá 1972 og þangað til hann fór til Eyja um 1973, Japana að nafni Kenichi Takefusa, 2. dan í goju ryu-karate, til kennslu. Æfingar voru þá að Laugavegi 178. Þetta var upphaf goju ryu á Íslandi því að umsvifalaust var skipt um stíl. Ken, eins og hann var kallaður, er fæddur 1950 og því nokkuð ungur með 3. dan [?] en þess má geta að hann náði 2. dan nokkru eftir að hann hóf kennslu í KFR. Hér kvæntist hann íslenskri konu og settist að. Af nemendum sínum var Ken mjög vel liðinn og talinn afburðakennari. Sensei Steve Cattle sagði einhverju sinni að eflaust hefðum við verið mjög heppnir að fá hann til kennslu og eftir lýsingum að dæma hefði hann verið mikill sensei og átt skilið hærri gráðu.

Ken hætti kennslu á árunum 1977 – 78 og hóf viðskipti, m.a. var hann í forsvari fyrir Japansk-íslenska (JAPIS). Núna er hann búsettur í Danmörku og er eftir því sem fregnir herma hættur karateiðkun.

Masahiko Tanaka
Í ágúst 1976 gekkst Þorsteinn Viggósson fyrir komu danskra shotokan-manna til sýninga og mótahalds. Fremstur í flokki í þessum hópi var Masahiko Tanaka 6. dan sem varð heimsmeistari 1975 í Los Angeles. Í Danmörku var Tanaka þekktur fyrir mikla hörku í karatekennslu sinni og að margra dómi eiga Danir nú sterkustu karatemenn á Norðurlöndum þó að ekki gangi þeim vel á mótum. Æfingarnar hjá Tanaka voru svo harðar að mikið fækkaði í shotokan-félögum í Danmörku á árunum sem hann dvaldist þar en þeir sem héldu út urðu þeim mun harðari af sér.

Tanaka byrjaði æfingar 18 ára og var kominn með 4. dan 25 ára. Í viðtali við danskt karateblað segir Tanaka: „Leiðin að Japansmeistaratitlinum er bæði löng og erfið. Ég æfði af krafti því að ég var staðráðinn í að sigra. Ég sagði við sjálfan mig að þar sem ég æfði tvöfalt meira en nokkur annar hlyti mér að auðnast að sigra. Þegar mér voru svo afhent sigurverðlaunin á 17. Japanska meistaramótinu 1974 liðu í gegnum huga mér svipmyndir þrotlausrar þjálfunar undanfarin 15 ár. Í veislunni eftir mótsslitin fannst mér sem sake hefði aldrei bragðast svo vel.“

Aðrir menn í karatehópnum ´76 voru: Bura 4. dan, Bruno Jensen 3. dan, Willy Schönberg 2. dan, Peter Munck 2. dan, Nakawaza 1. dan og íslenskættuðu bræðurnir Marinó, 3. dan, og Páll, 2. dan, Guðjónssynir. Förina skipulagði Íslendingurinn Þorsteinn Viggósson sem þekktur er fyrir veitingarekstur sinn í Kaupmannahöfn en hann hefur 1. dan. Þann 19. ágúst var haldin budo-hátíð í Laugardalshöll og fyrst var á dagskrá Íslandsmót goju ryu og sigraði þar Sigurður T. Sigurðsson sem þá var 3. kyu en Siggi er kunnur fimleikamaður og núverandi stangarstökkvari og fremstur í þeirri grein hérlendis, svo að honum er sannarlega margt til lista lagt. Annar varð þáverandi formaður KFR, Andrés Hafliðason 3. kyu, og þriðji Atli Erlendsson 2. kyu. Jökull Hafsteinsson varð fyrstur í kata.

Síðan var júdósýning undir stjórn landsliðsþjálfarans Naoki 4. dan og loks barði Tanaka svolítið á dönsku köppunum og Bura braut nokkrar þakhellur (danskar). Svona stórheimsókn eins og þessi er mikið verkefni og verður ekki í framtíðinni nema allir leggist á eitt.

Stjarnan
Fyrsti byrjendahópurinn í karatedeild Stjörnunnar var auglýstur haustið 1980 og hefur Stefán Alfreðsson 1. dan kennt við félagið frá byrjun. Æft er í íþróttahúsinu Ásgarði, Garðabæ. Stjarnan er þekktust fyrir sinn ötula formann sem hefur unnið geysimikið starf í samvinnu félaganna en það er Hannes Hilmarsson 3. kyu.

Fyrsta skrefið var að halda Karatedaginn 15. ágúst 1981 og var hann haldinn í Ásgarði, þá var sveitakeppni félaganna í Ásgarði í apríl 1982 og loks hefur Stjarnan keppt við tvö shotokan-félög; vann Gerplu með nokkrum yfirburðum á UMSK-móti í október 1982 og tapaði stórt fyrir Þórshamri á jólamótinu 1982. Síðan hafa þeir Stjörnumenn keppt á innanfélagsmótum KFR og staðið sig með miklum ágætum.

Stjarnan er, eins og Gerpla, aðili að UMSK sem hefur gert marga hluti í þágu karateíþróttarinnar, nú síðast var stofnað sérstakt karateráð í UMSK og eru tveir menn úr hvoru félagi sem sitja í því ráði eða alls fjórir. Verkefni ráðsins er að vinna að því að efla karateíþróttina.

Sumarið 1981 fóru Stjörnumenn í ferðalag til Akureyrar og æfðu þar yfir eina helgi. Heimsóknir milli félaga, og þá jafnt shotokan og goju ryu, hafa verið tíðar úr og í Ásgarð og er ekkert félag í jafnmiklum samskiptum við önnur karatefélög hér. Félagar í Stjörnunni eru ca. 75 og æfa að jafnaði 40 manns yfir veturinn. Sigríður Radómirsdóttir hefur staðið sig vel á mótum undanfarið og svo má nefna Þór Ólafsson sem vakið hefur athygli í kumite. Síðasta verkefni Hannesar Hilmarssonar formanns ásamt formanni Þórshamars var að láta gera verðlaunapening. Þetta mun vera fyrsti íslenski verðlaunapeningurinn í karate og er hann mjög vel gerður. Þau félög sem stóðu að gerð hans eru KDS, KFÞ, KFR, KDG, SKS, KSH og KFH. Og nú geta þessi félög gengið að stenslinum þegar vantar pening fyrir mót.

Selfoss
Veturinn 1980 – 81 byrjuðu nokkrir ungir Selfyssingar að æfa í Þórshamri og fjölgaði brátt liðinu sem sótti æfingar frá Selfossi. Nú var svo komið að þeim fannst hentugt að stofna félag á Selfossi. Félagið var skírt Karatefélag Selfoss en var nýlega breytt í shotokan karatedeild UMF Selfoss (SKS). Æft hefur verið á ýmsum stöðum í bænum, s.s. kjallara íþróttahússins, í barnaskólanum, sundlaugarkjallaranum og loks í íþróttahúsinu á staðnum. Kennara hafa SKS-menn fengið úr bænum og þá aðallega greinarhöfund [Karl Gauta Hjaltason].

Haustið 1982 héldu Reykjavíkurfélögin til Selfoss á æfingabúðir undir stjórn Árna Einarssonar 2. dan frá KFR og K. Gauta Hjaltasonar 1. dan úr KFÞ. Þar var dvalist tvær nætur og var þetta mikil lyftistöng fyrir karatelíf Selfoss. Á næstunni ráðgera Selfyssingar að halda sitt fyrsta Selfossmeistaramót og verður gaman að sjá hvernig þeim tekst til. Þetta mót ætti að sýna minni félögunum að slíkt er líka hægt og veitir hinum almenna félagsmanni tækifæri til að komast á verðlaunapall auk þess sem slíkt getur verið mikið fjárhagsspursmál fyrir févana félag. Helstu félagar sem hafa staðið sig vel í SKS eru þeir Ágúst Østerby formaður, Elís Kjartansson, Þorsteinn Másson, Gunnar I. Gunnarsson og Guðmundur Helgason. SKS hefur tekið virkan þátt í starfi shotokan-félaganna og þess má geta til gamans að þegar eitthvað er að gerast í bænum í karate kemur Selfossliðið yfirleitt á leigurútu.

Gerpla
Eins og nefnt er hér að framan æfði KFÞ í Gerplusalnum rétt eftir endurstofnun sína 1979. Komust þá á góð kynni við stjórn Gerplu og sumarið 1981 fór greinarhöfundur þess á leit við Margréti Bjarnadóttur, formann Gerplu, að stofna karatedeild. Vel var í það tekið og má sjá árangur þess nú. Gerpla hefur innan sinna vébanda eitt besta karatelið landsins, aðallega í unglingahópi þó að mikið hafi borið á formanninum Ævari Þorsteinssyni sem hefur staðið sig geysivel á mótum. Einnig má nefna Kjell Tveit en hann æfði áður í KFA.

Kennarar hafa ætíð, frá því KDG var stofnuð, komið frá KFÞ. Ýmsar uppákomur hafa verið á dagskrá Gerplu, t.d. æfingabúðir með Steve Cattle og samæfingar shotokan-félaganna. M.a. hefur verið sett mætingarmet í Gerplu í október sl. [1982], 107 manns á einni æfingu en það var SKSÍ-samæfing. Þann 24. janúar er svo ráðgert að slá þetta met og kýla síðan 235.000 sinnum eða um 2.000 sinnum á mann. Nú er ráðgert hjá KFR og Gerplu að halda mót milli félaganna og þá í lægri gráðum. Ég tel það hins vegar besta kostinn að takmarka ekki við gráður í keppnum milli tveggja félaga, það bjagar mjög öll úrslit og getur valdið misskilningi en slík mót eiga þá að vera opin öllum félögum því ekki verða svo margir keppendur í lægri gráðum úr tveimur félögum. Ævar formaður hefur hlotið nafnið „Eimreiðin“ vegna þess hve fljótt hann hefur farið upp beltakerfið en hann hóf æfingar í október 1981 og var einu ári seinna kominn með 4. kyu. Ekki þarf að taka það fram að þetta er met í 10. kyu-kerfinu á Íslandi.

Steve Cattle
Sensei Steve Cattle 5. dan er án efa virtasti kennari á Íslandi hin síðustu ár og er það ekki bara hans frábæra kennsla sem því veldur heldur öllu fremur hlýtt viðmót og djúpur skilningur hans, bæði á íþróttinni og aðstöðu Íslands sem er þjálfaralaust hér úti á reginhafi íss og elds.

Hann kom hingað til lands til Þórshamars fyrst í október 1981 og síðan til SKSÍ í apríl 1982. Í bæði skiptin voru æfingabúðir opnar öllum karateiðkendum, hvar í stíl sem þeir stóðu. Þetta hafði mikil áhrif í þá átt að auka samskipti goju ryu og shotokan sem höfðu þó farið batnandi eftir Karatedaginn 15. ágúst 1981.

Steve Cattle er heimsþekktur karatekennari og kennir m.a. í Kenya, Írlandi, Noregi, Bretlandi (þar sem hann er einn af átta aðalþjálfurum KUGB), Svíþjóð og Íslandi. Hann er rétt 38 ára og enn á fullri ferð á mótum. Cattle varð Englandsmeistari 1981 en hafði áður hlotið marga titla í heimalandi sínu. Stíll hans er mjög hreinn, djúpar stöður og hreyfanleiki, kime aðdáunarvert og að horfa á hann gera oizuki eða sanrenzuki getur gert mann orðlausan af hrifningu. Hann hefur mikinn áhuga á Íslandi og vill koma hingað aftur en vinna hans við kennslu hefur aftrað því í vetur. [Steve Cattle lést í febrúar 1995, hann tók 6. dan ári áður]

SKSÍ
SKSÍ er skammstöfun á Shotokan karatesamband Íslands. SKSÍ var stofnað 28. nóvember 1981 og eru nú fimm félög aðilar að sambandinu, þ.e. KFÞ, KDG, SKS, KFH og KSH. Sambandið er ekki aðili að ÍSÍ og er það ekki ætlunin heldur að starfa innan væntanlegs Karatesambands Íslands [KSÍ var stofnað 1985].

Sambandið fer aðeins með mál shotokan-félaganna, s.s. að fá hingað til lands erlenda þjálfara, halda æfingabúðir, Íslandsmót í shotokan, samræming og samvinna í karate á Íslandi o.s.frv. SKSÍ hefur reynst vel og hefur margt verið unnið, s.s. gerðar reglur um próf, þjálfun og fleira en það er nauðsyn til að ekki myndist klofningur í íþróttinni eins og oft vill verða. Stolt SKSÍ eru án efa hin svokölluðu sambandsskírteini sem allir félagar fá í sínu fyrsta prófi. Sambandið hefur líka gengist fyrir samæfingum og samgangi milli einstakra félaga. Formaður SKSÍ er nú Karl Gauti Hjaltason KFÞ en sæti í miðstjórninni eiga a.m.k. einn úr hverju félagi innan sambandsins.

Ónefndur er einn veigamikill þáttur í starfseminni en það er að veita félögum upplýsingar um æfingabúðir erlendis. Hafa fjölmargir farið utan til æfinga, s.s. til Þýskalands, Noregs, Englands og Bandaríkjanna.

Sindri
Sveinbjörn Imsland hóf að æfa karate um 1978 í KFR. Þegar KFÞ var endurstofnað 1979 flutti Sveinbjörn sig yfir í það félag enda þekkti hann til forsvarsmanna félagsins. Í KFÞ var hann ritari lengi vel en síðar kennari í Gerplu eftir að karatedeild var stofnuð þar og formaður þar til bráðabirgða. Sumarið 1982 fór hann tvisvar í æfingabúðir til Bretlands og náði shodan í september 1982. Þá hélt hann beint heim á æskustöðvarnar og stofnaði karatedeild Sindra á Höfn í Hornafirði. Félagar eru nú um 25 og er æft grimmt.

Félagið hefur, eins og reyndar flest shotokan-karatefélögin, gefið út bækling til kynningar á íþróttinni fyrir byrjendur. Í þessum kynningarbæklingum koma m.a. fram gráðunarkröfur, símaskrá félaga, reglur, próf, karatefræðsla, japönsk orð og margt fleira. Kostur við slík félög sem hafa einn þjálfara er mikill því þá getur hann algjörlega farið eftir því sem hann telur að sé besta aðferðin til að ná árangri með heilt félag. Það mun Sveinbjörn án efa gera.

FH
Sumarið 1982 fóru Karl Gauti og Ævar Þorsteinsson þess á leit við formann FH að stofna karatedeild innan vébanda félagsins og tók Borgþór formaður mjög vel í það. Húsnæði var fengið í Þrekmiðstöðinni, Dalshrauni 4 Hafnarfirði, en þar er mjög góð aðstaða, t.d. sauna, þrekæfingasalur, heitir pottar, ljósabekkir, félagsaðstaða og nudd. Allt þetta hafa félagsmenn notfært sér og verið ánægðir með. Bráðabirgðastjórn var í upphafi sett á laggirnar eins og nú er venja þegar nýtt félag er stofnað. Henni veitti forstöðu Jón Bjarnason sem hefur æft í Þórshamri. Kennarar eru einnig úr Þórshamri.

Nú er svo komið að Þórshamar hefur stofnað eða stuðlað að stofnun fjögurra nýrra félaga undanfarin tvö ár og hefur það eitt sér verið ærið starf. Árangur erfiðisins fer að koma í ljós nú á næstu árum með vaxandi fjölda iðkenda í karate, fleiri keppnum og aukinni samkeppni.

Útgáfa
Helstu rit og upplýsingar um karate sem til eru á íslensku: Helgi Briem Magnússon KFR gaf út 1975 – 76 bók um karate þar sem undirstöðuatriðin eru kennd. Bókin er til á bókasöfnum og líklega enn í verslunum. Sama ár fréttist af sölumönnum karatebæklings þar sem farið var eilítið í sögu karate og undirstöðuatriði og vill svo til að höfundur á eitt eintak þessa bæklings. Gaman væri að vita hver gaf hann út. Í mars 1980 var fyrsta Karateblaðið gefið út og er það nú löngu uppselt. Það var gefið út af greinarhöfundi. Karatefélagið Þórshamar hélt útgáfunni áfram og næstu Karateblöð komu út í október 1981, janúar og október 1982 og nú 1. tbl. 1983.

Í þessum blöðum má vísa í nokkrar góðar greinar um karate, s.s. um uppruna karate í 1. tbl. 1981 og könnun á karateiðkendum í sama blaði (tölulegar upplýsingar). Í 1. tbl. 1982 er góð grein um muninn á stílunum goju ryu og shotokan og viðtal við Steve Cattle í 2. tbl. 1982. Lesendum er bent á að öll blöðin eru löngu uppseld en hægt er að fá ljósrit hjá stjórn Þórshamars ef áhugi er á einstökum greinum. Karatefélag Reykjavíkur hefur gefið úr Bæklinginn tvisvar, 1. tbl. í apríl 1982 og 2. tbl. í nóvember 1982. Að öllu öðru leyti er mjög þurrt um að litast á markaðnum og væri vert að bæta þar úr. Karateblaðið mun væntanlega, þegar fleiri sígildar greinar hafa birst í blaðinu, gefa út safn þeirra í einu blaði.

Frá höfundi
Að lokum vil ég þakka þeim sem hafa veitt mér hjálp við gerð þessarar sögu, sérstaklega Guðbrandi Jónatanssyni, Atla Erlendssyni, Árna Einarssyni, Gísla Klemenzsyni ritstjóra, Ágúst Østerby, Sveinbirni Imsland og Ævari Þorsteinssyni. Ég vona að sagan komi að góðum notum við það sem henni var ætlað en það er að fræða lesendur um uppruna karate á Íslandi en 80% þeirra sem æfa karate um þessar mundir hafa byrjað á síðustu tveimur árum. Ef einhverjar upplýsingar hafa gleymst eða rangfærslur er að finna í greininni vinsamlegast látið vita. Hjördísi Harðardóttur þakka ég prófarkalestur. Að lokum er hér yfirlit yfir söguna með ártölum til frekari glöggvunar.

Helstu mót
Íslandsmót goju ryu í Höllinni 19. ágúst 1976. Sigurður T. Sigurðsson sigurvegari í kumite, Jökull Hafsteinsson í kata.

Íslandsmót í shotokan 3. janúar 1982. Sigurvegari í kumite og kata Karl Gauti Hjaltason, í kata kvenna Hjördís Harðardóttir.

Sveitakeppni félaganna 9. apríl 1982. Sigurvegarar A-sveit KFR (fimm manna sveitir).

Í stuttu máli
1969 – 70 Heimsókn Akimara Simonishi og Thosioki Tani 3. dan.
1971 Reynir Santos kennir í þrjá mánuði í Biskupstungum.
1972 Santos kennir í Skipholtinu.
1973 Santos kennir í Baldurshaga, varð síðar KFR.
– vor Santos kennir Guðbrandi í Eyjum.
– sept. KFR stofnað.
1974 sept. Ken kennir í KFR.
– KFV stofnað í Eyjum.
1975 okt. Santos stofnar KFÍ.
1976 ág. Heimsókn Tanaka og félaga.
1975 – 76 KFA stofnað.
1977 vor KFÍ leggst niður.
1978 – 79 Ken hættir kennslu í KFR.
1978 – 80 KFR fær Sannomiya fjórum sinnum til kennslu.
1979 maí KFÍ endurstofnað. [síðar Þórshamar]
1980 júlí Japansferð goju ryu.
– sept. KDS stofnað.
1981 mars KFS stofnað.
– mars Nafni KFÍ breytt í Shotokan karatefélagið.
– júní Noregsferð shotokan-manna.
– ágúst Karatedagurinn í Ásgarði.
– sept. KDG stofnuð.
– okt. Steve Cattle 5. dan til SKF.
– nóv. SKSÍ stofnað.
1981 – 82 Ólafur Wallevik kemur til Shotokan karatefélagsins fjórum sinnum.
1982 jan. Íslandsmót shotokan.
– feb. Martin Burkhalter til shotokan karatefélaganna.
– mars Brian Waits 5. dan til Karatefélags Reykjavíkur.
– apríl Steve Cattle aftur til SKSÍ.
– apríl Sveitakeppni félaganna.
– maí Bretlandsför Gerplu.
– júní Noregsförin seinni.
– sept. Karatedeild Sindra stofnuð.
– sept. Karatedeild FH stofnuð.
– okt. Fyrsta þátttaka á NM, Ólafur Wallevik KFÞ í 3. sæti.
– okt. Nafni SKF breytt í KFÞ.
1982 Nafni KFS breytt í SKS.
1983 jan. Íslandsmót í shotokan.

 



    © Karatefélagið Þórshamar • Gestir síðan 1.jan 2001